Ristill er algengur smitsjúkdómur sem orsakast af endurvakningu af varicella-zoster veirunni (hlaupabóluveira) og kemur þess vegna eingöngu fram hjá fólki sem hefur fengið hlaupabólu sýkingu. Ristill kallast shingles eða herpes zoster á ensku og veldur staðbundnum, sársaukafullum útbrotum í húð, einkennandi á öðrum helmingi líkamans.
Eftir hlaupabólusmit leggst varicella-zoster veiran í dvala í taugavef líkamans og er þar árum eða áratugum saman. Veiran getur virkjast aftur og færist þá með taugum aftur fram í húðina og veldur einkennandi ristilútbrotum. Allir sem hafa fengið hlaupabólu geta átt það á hættu að fá ristil einhvern tímann síðar á ævinni. Börn geta einnig fengið ristil en það er sjaldgæfara og virðist algengara hjá börnum sem fá hlaupabólu mjög ung. Algengast er að fá ristil eftir 50 ára aldur og yfirleitt eru einkennin meiri eftir því sem fólk verður eldra. Í sérstakri áhættu eru einstaklingar með veikt ónæmiskerfi og fólk með krabbamein. Flestir fá ristill einungis einu sinni.
Vessandi ristilsár og ristilblöðrur innihalda mikið magn af hlaupabóluveirunni og viðkomandi er þar af leiðandi mjög smitandi fyrir fólk sem ekki hefur fengið hlaupabólu. Eftir að blöðrur hafa horfið og sárin orðin þurr er viðkomandi ekki lengur smitandi. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem er bólusett gegn hlaupabólu fær síður ristil síðar á ævinni en þeir sem hafa smitast náttúrulega af hlaupabólu.
Hafi móðir ekki fengið hlaupabólusýkingu fyrr á ævinni eða verið bólusett, þá getur hlaupabólusmit á meðgöngu haft skaðleg áhrif á fóstrið.
Einkenninn eru mismikil og fara yfirleitt eftir staðsetningu ristilútbrotanna og aldri og heilsu viðkomandi einstaklings. Ristilútbrot einkennast af því að þau eru yfirleitt einungis öðru megin á líkamanum, fylgja ákveðnu taugasvæði og fara ekki yfir miðlínu
Algengasta staðsetning ristilsútbrota eru á bringu/baki. Nokkuð algengt er líka fá útbrotin á hálssvæði og grindarsvæði. Ristilútbrot í andliti hafa í för með sér áhættu á sýkingu í auga en slíkt getur verið hættulegt. Einkenni ristils í auga eru meðal annars roði, verkir, ljósnæmni, þokusýn og tvísýni. Tíðni ristils í auga eykst með hækkandi aldri.
Hjá flestum ganga einkenni ristils yfir á nokkrum vikum og fólk jafnar sig að fullu. Hins vegar fær einn af hverjum tíu alvarleg eða langvarandi einkenni ristils, meðal annars:
Meðferð með veiruhemjandi lyfjum getur minnkað einkenni og stytt tímalengd ristilútbrotanna ef hún hefst innan 1-3 daga frá upphafi útbrotanna. Lyfin Valaciclovir eða Aciclovir eru oftast notuð. Jafnframt er einkennameðferð með verkjalyfjum, deyfikremum og taugaverkjalyfjum oft viðhöfð, eftir því sem þörf er á.
Langvarandi taugaverkir eftir ristil eru stundum meðhöndlaðir með taugaverkjalyfjum eins og gabapentin eða pregabalin eða ákveðnum eldri geðlyfjum eins og amitriptyline. Sumum hefur reynst vel að nota TENS (transcutaneous electrical nerve stimulation) tæki á húðsvæðið sem um ræðir og í einstaka tilfellum hjálpar að setja bótox í húðina.
Reyndu að hvíla þig eins og hægt er
Það er ekki hægt að losna við hlaupabóluveiruna eftir smit, en það er hægt að fá bólusetningu við ristli á heilsugæslustöðvum. Þar sem líkur á alvarlegri sýkingu og langvarandi fylgikvillum eykst hjá eldra fólki sem sýkist, ætti að íhuga ristil bólusetningu hjá fólki yfir 60 ára aldur. Bólusetningin minnkar líkur á ristli um 50 % og bólusett fólk sem fær ristil upplifir mun minni einkenni og fylgikvilla en ella.