Kossageit er bakteríusýking í húðinni sem er oftast orsökuð af grúppu A streptókokkum eða Staphylococcus aureus (⅓ tilfella). Þessar bakteríur geta lifað í hálsi og á húð án þess að gefa einkenni.
Einkennin byrja oftast með litlum blöðrum í húðinni, sem rofna auðveldlega og við það myndast sár og svo gulleitt hrúður (hunangsgul sárskorpa). Útbrotin eru algengust í andliti og á höndum. Oft fylgir kláði og getur sýkingin breiðst út ef viðkomandi klórar sér en þegar sárin gróa án örmyndunar. Flestir eru án annarra einkenna eins og hita eða slappleika.
Kossageit smitast mjög auðveldlega og smit innan fjölskyldu, á leikskólum og í skólum er vel þekkt vandamál. Bakterían smitast við snertismit t.d. við að fingur snertir útbrotin og ber smitið áfram til annarra en smit getur einnig borist á milli með hlutum eins og leikföng og handklæðum.
Yfirleitt er greiningin ljós við skoðun en hægt er að taka ræktun frá útbrotunum og þannig fá úr skorið hvaða baktería veldur sýkingunni og upplýsingar um sýklalyfjanæmi. Oftast þarf ekki að meðhöndla með sýklalyfjum.
Ef ekki dugar að uppræta sýkinguna með almennum ráðleggingum þarf stundum sýkladrepandi krem eins og Fucidin smyrsli sem er borið í sárið 2-3x á dag í 5 daga. Einstaka sinnum eru sýklalyf til inntöku notuð ef kossageitin er útbreidd.