Dermatofibroma

Dermatofibroma

Hvað er dermatofibroma?

Dermatofibroma eru góðkynja bandvefshnútar í húð. Þeir koma oftast á neðri útlimi og frekar hjá fullorðnum einstaklingum, en eru aðeins algengari hjá konum en körlum.


Af hverju myndast dermatofibroma?

alið er að einhvers konar skaði á húðinni komi af stað dermatofibroma myndun. Algengast eru skordýrabit en nálastungur eins og bólusetningar geta líka gert hið sama. Yfirleitt er fólk löngu búið að gleyma hvort það hafi verið með bit á húðinni á þeim stað sem dermatofibromað birtist, því það tekur tíma að myndast.


Flest fá einstaka dermatofibroma og fótleggir eru algengasta staðsetningin. Sumir einstaklingar eru með nokkur dermatofibroma. Þessir bandvefshnútar geta hins vegar komið nánast hvar sem er á líkamanum.


Hvernig lítur dermatofibroma út?

Dermatofibroma eru oftast 0.5 - 1.5 cm að stærð og eru upphækkaðir húðlitaðir, bleikir eða brúnleitir hnútar í húðinni og oft nokkuð hörð viðkomu. Oft eru þau ljósi í miðjunni og ef klipið er í húðina umhverfis breytinguna sekkur dermatofibromað niður og það myndast eins konar hola eða gróp í húðinni (kallast dimple sign á ensku). Flest hafa engin einkenni af dermatofibroma en stundum klæja þau eða eru aum.


Er dermatofibroma hættulegt?

Dermatofibroma eru alveg hættulaus og þar af leiðandi þarf ekki að fjarlægja þau. Stundum eru þau staðsett á stöðum sem trufla fólk, t.d. á fótleggjum þar sem rakstur getur orsakað endurteknin skaða og sár. Ef óskað er eftir fjarlægingu á hnútum, þarf að skera þá burtu með tilheyrandi örmyndun. Ef þau klæja eða bólgna upp vegna ertingar og kláða er gott ráð að bera Mildison sterakrem á þau 1-2x á dag þar til bólgan hverfur.


Share by: