Keratosis pilaris

Keratosis pilaris

Hvað er Keratosis pilaris?

Keratosis pilaris (KP) er algengt fyrirbæri sem lýsir sér í litlum nöbbum eða bólum, aðallega á handleggjum og lærum. Þessi kvilli er saklaus en getur stundum pirrað fólk útlitslega.


Hverjir fá keratosis pilaris?

Rannsóknir hafa sýnt að 50-80% barna eru með KP og allt að 40% fullorðna. Hins vegar eru margir með svo væg einkenni að þeir vita ekki af því. Keratosis pilaris er að finna hjá öllum kynþáttum og öllum húðgerðum, en kvillinn er aðeins algengari hjá konum. Einkennin eru algengust hjá börnum, unglingum og hjá fólki sem er með atópískt exem. Vanalega byrja einkennin fyrir 2. ára aldur eða á unglingsárunum og algengt er að börn með KP versni til muna á kynþroskaskeiðinu vegna hormónabreytinga. Hins vegar verða flestir betri þegar þeir eldast.


Eftirfarandi þættir auka áhættuna á keratosis pilaris:


  • Foreldrar eða systkini með KP
  • Atópískt exem
  • Mjög þurr húð
  • Astmi
  • Frjókornaofnæmi
  • Ichthyosis vulgaris (erfðasjúkdómur sem lýsir sér í mjög þurri hreisturhúð)


Hvernig myndast keratosis pilaris?

Keratosis pilaris er fyrirbæri sem erfist og ef eitt eða bæði foreldra eru með KP eru miklar líkur á að barnið fái líka KP. Megin orsök keratosis pilaris er myndun svokallaðs keratíns tappa. Keratín er aðal byggingarprótein hárs og yfirborðs húðarinnar, en upphleðsla á keratíni frá dauðum húð- og hárfrumum stíflar yfirborð hársekkjanna í húðinni. Þá myndast einkennandi litlir húðlitaðir upphækkaðir nabbar. Þetta getur síðan leitt af sér bólguviðbragð í hársekkjunum, með tilheyrandi roða, sem þá líta út eins og litlar rauðar bólur. Stundum lokast hárið sjálft inni í tappanum og eykur þá enn á bólguna.


Hvernig lýsir keratosis pilaris sér?

Einkennin felast í litlum þurrum nöbbum eða bólum sem stundum klæja. Yfirborð húðarinnar líkist stundum kjúklingahúð eða gæsahúð. Oftast eru bólurnar húðlitaðar eða ljósrauðar og ef þær eru fjarlægðar koma þær aftur. Algengustu staðsetningar keratosis pilaris eru upphandleggir, læri, rasskinnar og bak. Stundum koma einkennin fram í andliti og þá sérstaklega í kinnum og augabrúnum en þessi tegund af keratosis pilaris kallast keratosis pilaris rubra faciei. Einkennin eru oftast verri yfir vetrartímann þegar er kalt og þurrt og betri á sumrin.


Er hægt að meðhöndla keratosis pilaris?

Þar sem keratosis pilaris er saklaus kvilli er meðferð í raun óþörf. Hins vegar er hægt að draga úr sjáanlegum einkennum með ýmsum aðferðum. 


Mikilvægasta einkennameðferð KP er að viðhalda raka húðarinnar með daglegri notkun rakakrems, þar sem þurrkur ýtir undir einkenni kvillans og flestir sem eru með keratosis pilaris eru í grunninn með þurra húð. Leitaðu að rakakremum sem innihalda húðlosandi efni (exfoliating) til að losa um keratíntappana t.d. glycolic acid, salicylic acid, lactic acid eða urea. Dæmi um slíkar vörur eru Neostrata glycolic renewal smoothing lotion, CeraVe SA Smoothing Cream, Maricell SMOOTH krem og Eucerin UreaRepair Plus Lotion. 


Betra er að fara í stuttar sturtur með volgu vatni og notaðu mildan líkamshreinsi því heitt vatn og langar sturtur og/eða baðferðir þurrka húðina og gera einkennin verri. 


Ef einkenni keratosis pilaris eru verulega slæm eða með mikla útbreiðslu er hægt að reyna lyfseðilsskylda meðferð t.d sterakrem ef veruleg bólga er til staðar, retínól krem eins og Differin eða Tretinoin og í einstaka tilfellum Isotretinoin (Decutan) töflur.



Við meðferð keratosis pilaris þarf að hafa eftirfarandi í huga:
  • Forðastu að kroppa og kreista nabbana því það eykur líkurnar á sýkingu og örmyndun
  • Það tekur tíma að sjá árangur, gerðu ráð fyrir amk 4-6 vikum til að sjá sjáanlegan mun
  • Stundum þarf að prófa mismunandi meðferðir áður en viðunandi árangur næst
  • Þegar árangri er náð þarf að viðhalda honum. Það er t.d. gert með því að nota það krem sem gaf árangurinn 2-3x í viku. Ef þurfti lyfseðilsskylda meðferð getur viðhaldsmeðferð falist í daglegri notkun rakakrems sem innihaldur húðlosnandi efni


Mun ég losna við keratosis pilaris?

Þar sem KP erfist, er ekki hægt að lækna þennan kvilla. Mjög margir losna hins vegar smám saman við einkenni KP eftir unglingsárin, jafnvel án meðferðar. Það er hins vegar ekki sjálfgefið og sumir eru með einhver einkenni alla ævi.

 
Sjá nánar:

Myndband um keratosis pilaris frá amerísku húðlæknasamtökunum:

https://www.youtube.com/watch?v=rtVETZij2fM

https://dermnetnz.org/topics/keratosis-pilaris

Share by: