Spider nevus

Spider nevus

Hvað er spider nevus?

Spider nevus er æðabreyting í húðinni og er stundum nefnd háræðastjarna á íslensku. Þessar breytingar myndast út frá lítilli útvíkkaðri æð sem geislar frá sér minni æðum en nafnið kemur til vegna þessa að útlitið minnir á könguló.


Nokkuð algengt er að vera með einstaka spider nevus, sérstaklega hjá börnum og unglingum, en talið er að 10-15% fólks fái slíkar breytingar einhvern tímann á lífsleiðinni. Sumir eru í meiri áhættu á að fá margar breytingar, þar á meðal er fólk með ljósa húðgerð, ófrískar konur, konur á getnaðarvarnapillunni og fólk með lifrar- og skjaldkirtilssjúkdóma. 


Algengast er að finna spider nevus í andliti, á hálsi og bringu. Yfirleitt fylgja engin einkenni en einstaka sinnum blæðir ef þær rofna við hnjask.


Hvað veldur spider nevus?

Breytingin myndast vegna þess að hluti vöðva, sem er inni í æðaveggjum, dregst ekki saman og þá víkkar hluti æðarinnar út. Þetta getur gerst að sjálfu sér, vegna aukinna estrogena í blóðinu eða vegna sjúkdóma.


Er hægt að fjarlægja spider nevus?

Þessar breytingar eru saklausar og í raun þarf ekki að fjarlægja þær. Það er hins vegar hægt að taka þær ef útlit þeirra truflar fólk. Breytingarnar geta jafnvel horfið að sjálfu sér en það gerist oftar hjá börnum og eftir fæðingu ef breytingarnar hafa myndast á meðgöngu. Einfaldast er að meðhöndla spider nevus með æðalaser og þá er engin áhætta á að ör eða litabreyting myndist eftir meðferðina en einnig er hægt að brenna og frysta þær burtu.

Share by: